31. des. 2006

2006

Nú fer þetta yndislega ár að enda. Búið að vera spes. Byrjunin á því var mögnuð þar sem að draumaprinsinn kom bókstaflega á skýji inn í mitt líf. Ég þekkti hann ágætlega vissi bara ekki að hann var þessi sem ég var búin að bíða eftir. Hann sat fyrir aftan mig í vinnunni í níu mánuði án þessa að ég tæki eftir því. Og það var líka svona hjá honum. Sem sagt, okkur datt þetta ekki í hug að við værum hér fyrir hvort annað. En við vitum það núna og eftir allt sem við höfum gert saman á þessu ári og upplifað er það bara byrjunin á öllu sem við eigum eftir að gera og upplifa saman.

Það hefur gengið vel með börnin þó það sé mjög erfit að njóta þeirra aðra hvora vikuna. Við pabbi þeirra reynum líka að gera allt svo þeim líði sem best og það skiptir svo miklu máli.

Mér finnst aðfangadagskvöld skemmtilegra en gamlárskvöld. Það er eitthvað við það kvöld sem ég bara er ekki að fatta hvers vegna mig hlakki ekki til. Ég spurði gæjann hvort við ættum ekki bara að vera í útlöndum næsta gamlárskvöld og hann leit á mig næstum hissa og spurði hvers vegna. Æi mig langar bara að gera eitthvað spes og skemmtilegt. Hann sagðist ekkert þurfa að fara til útlanda til þess, finnst þetta kvöld skemmtilegt hér á landi. Við ræddum þetta pínu meira og núna er ég að hugsa hvers vegna langar mig ekki að vera hér á næsta ári. Er það vegna þess að ég er ekki með börnin? Nei, það er ekki ástæðan. Hef ekki hugmynd hver hún er. Ég vona bara að þetta kvöld verði skemmtilegt og þar sem að ég fæ að njóta barnanna og gæjans hlýtur það verða frábært.

Þetta er farið að vera of langur pistill og þá nennir engin að lesa hann. Ég fór útá videoleiguna, Bíó-grill, sem ætti að leggja niður en þegar frænkurnar voru búnar að horfa á sína mynd og komnar undir sæng og ég búin að ganga frá og ætlaði að hlamma mér í sófann og horfa á mína var hulstrið tómt!

svo ég ætla bara að fara í bað og vona að gæinn fari að koma heim til mín.

hafði það gott um áramótin.

Tútelú.

27. des. 2006

Gleðileg jól!

Jæja, þá er ég komin í vinnuna, södd og sæl eftir vikuna. Við vorum 18 á aðfangadagskvöld heima hjá ma og pa og allt gekk vel. Amma og systir hennar voru stilltar, mamma var róleg, fátt um börn en ein frönsk frænka var frekar spennt. Mér var mikið hugsað til minna barna þetta kvöld. Var sátt, vissi að þau væru að njóta sín hjá ömmu sinni og afa með pabba sínum. Svo kíkti ég í kaffi til þeirra um kvöldið og fékk að skoða allt sem þau fengu. Ég hélt að það yrði erfið stund en svo var ekki.

Það er alltaf gaman að fá ættingja sem búa erlendis í heimsókn en það er alltaf samt svo mikil stjórnsemi í öllum. Brói er búin að ákveða að vera heima hjá sér næstu jól. Hann kemur hingað í næstum tvær vikur og það er búin að skipuleggja tímann hans. Ekkert verið að spá í hvort eða hvað hann vill gera. Líka búið að plana hluti sem ég á að gera, en ég segi bara pass!

Fínt að geta stungið af í vinnuna, nenni samt ekkert að vera hér, ekkert að gera og engin Berglind!

Hafið það gott kæru lesendur og gleðilega hátíð.

21. des. 2006

Allt að gerast...

Eftir nokkra tíma fer ég út á flugvöll að sækja bróa. Alltaf svo gaman að fá hann í heimsókn. Bróðir hennar mömmu kemur líka ásamt börnunum sínum en ég hef ekki séð þau í átta ár. Svo kemur hinn bróðir hennar á laugardag frá London og systir hennar, maður og barn eru þegar komin frá Frakklandi.
Þessi jól verða skrítin og erfið. Börnin verða hjá pabba sínum á aðfangadag og koma svo til mín á jóladag. Þetta er erfitt, að vera án þeirra þetta skemmtilega kvöld en svona er lífið og ég veit að kvöldið verður yndislegt hjá þeim. Þeim finnst gott að vera hjá okkur jafnt enda myndi ég ekki vilja að pabbi þeirra fengi ekki að hafa þau á aðfangadag. Finnst skrítið að fólk sem ég hef rætt við finnst það bara sjálfsagt að þau séu hjá mér, að þau séu hjá mömmu sinni. Ég er ekki sammála því, engan vegin. Ég vil að þau séu þar sem þeim líður vel og eru ánægð. Af hverju á pabbinn ekki líka að fá að njóta þeirra þetta kvöld og börnin pabba síns?

En mér mun ekki leiðast og þar sem að það verður fjölmennt hjá ma og pa þetta kvöld mun ég geta gleymt mér aðeins. En auðvitað mun ég kíkja til þeirra seinna um kvöldið og kyssa þau og knúsa. Á samt von á því að það verði annsi erfitt.

En annars er þessa blessaða jólagjöf handa gæjanum að verða tilbúin. Ég náði að hitta Höbbu í gær sem var frábært, var ekki viss um að ég gæti beðið fram í febrúar. Og ég þarf ekkert að skúra í dag né á morgun... jibbý!

Ég skrapp aðeins frá í hádeginu og þegar ég kom til baka var búið að skreyta skrifstofuna mína mjög fallega. Takk fyrir það Álfur, hver sem þú ert.

Hadde!

19. des. 2006

Álfaprinsessa

Hí hí, ég fæ að vera álfaprinsessa í dag. Fékk spöng og töfrasprota og mun labba um svæðið með reglulegu millibili og dreifi töfrum mínum yfir samstarfsfólkið.

:( fæ samt bara vera í dag, ekki á morgun.

Töfrar, töfrar!

18. des. 2006

Aldur

Ég er bara 31 árs, finnst það ekki neitt. Aldur hefur aldrei verið eitthvert áhyggjuefni. Man alltaf þega Nína vinkona fór að gráta í 15 ára afmælinu sínu vegna aldurs. Kannski hefur þetta ekki verið neitt þar sem að ég var komin með tvö börn, sambúð og íbúð 23 ára gömul meðan allar vinkonurnar voru á fullu í háskóla, hérna heima eða erlendis. Þær eru núna búnar að settla sig og þrjár af tíu orðnar mæður.
Á flestum stöðum þar sem ég hef unnið hef ég oftast verið yngst og gert grín af því, "þú ert bara barn og mannst þetta ekki eða hitt" var sagt við mig. Ég er ekki yngst þar sem ég vinn núna og alltí gúddí með það.
En gæinn er tveim árum yngri, ekkert athugavert við það, börnin voru hissa um daginn, "Ertu yngri en mamma? sagði drengurinn, og mér fannst skrítið að hann væri að spá í aldursmuni en sagði svo, " samt ertu hærri en hún"! Auðvitað gat það ekki verið annað en það. Svo fór ég með gæjann í sund og við vorum eitthvað að spjalla og hann var eitthvað að tala um framtíðina og segir, " ...eftir átta ár þá, ég meina þá ert þú orðin fertug og....". Mér brá dáldið við að heyra þetta, fertug, eftir átta ár. Mér finnst stutt þangað til og þegar maður er orðin fertugur þá hérna, já sko... segi ekki meir.
Svo er myndaleikur hér í vinnunni og búið að hengja upp myndir af starfsfólki hér þegar þau voru lítil og það eru bara fjórar litmyndir. Ég stóð þarna yfir þeim og talaði um það hve gamallt fólk væri nú að vinna hérna! Ég lét auðvitað litmynd en svo fattaði ég að ég á helling af svarthvítum myndum af mér síðan ég var lítil, nakin á gæru einsog þau sem eru 45 og yfir. Þýðir það að ég er orðin gömul?

15. des. 2006

Háskólapæja!

Jebb, ég komst inní Kennó. Er mjög ánægð, vantar bara peninga og skipulagningahæfileika, orkupillur og drykki. Ég mun bara klára þetta á ári, verð reyndar yfir sumartímann líka svo það verða ekki einsmörg ferðalög á næsta ári einsog á þessu sem er að líða. Þetta er fjarnám og ég vona að það verði ekki of erfit og ég þurfi að minnka vinnuna, kemur í ljós.
Finnst þetta samt dáldið skondin hugsun, að verða kennari, kenna í Iðnskólanum t.d., með gömlu kennurunum mínum...

Svo ég er enn í svaka góðu skapi, ánægð með lífið. Gaman í vinnunni, álfaleikur og myndaleikur. Við eigum að koma með gamla mynd og svo reyna að giska á hver er hvað.
Ætla að vinna eitthvað núna og hlusta enn og aftur á þetta lag, sem mér finnst helvíti gott, einsog myndin var!

14. des. 2006

I feel good, I knew that I would!

Og gaman gaman. Líður vel. Gott að vera komin aftur. Takk sæta systir fyrir að sparka í rassinn minn í gær og senda mig í sund sem var yndislegt. Ætla reyna að vera dugleg að mæta með þér í næstu viku á morgnana.

Ég er super hress og vona að þið séuð það líka. Langar í komment.

Viltu kommenta hjá mér?

13. des. 2006

Næturgarg

Klukkan er að verða þrjú og ég get ekki sofnað. Langaði að garga og þá mundi ég eftir þessu bloggi hér.

Mér finnst alveg magnað hvernig maður getur stundum verið. Einn daginn er maður í svaka góðu skapi, allt gengur vel og upp hjá manni, allt virðist vera fullkomið. Svo koma svona dagar þar sem allt er ómögulegt, eða ætti ég að segja þar sem að manni finnst maður sjálfur vera ömurlegur! Gjörsamlega hundleiðnlegur, ekki hægt að tala við, finnst allir vera vondir og leiðinlegir, ekkert gengur upp og það er ekki manni sjálfum að kenna heldur hinum og þessum. Maður er svo viðkvæmur að börnin mega varla yrða á mann einhverju saklausu án þess að maður fríki út. Sem betur fer er alltaf hægt að fara inná klósett og læsa sig þar inni og anda djúpt... stundum gengur það upp og stundum ekki og sérstaklega ekki þegar þessir fúlu dagar eru í gangi.
Og hvað er vandamálið? Hvað er það sem klikkar? Ég er búin að spyrja mig og ég held ég hafi ekki hugmynd...
Er það af því að ég fékk ekki launahækkunina? Er það af því að ég er búin að vera heima með veikt barn? Er það af því að ég sendi soninn í skólann í morgun en hann vildi ekki fara, sagðist vera slappur, en ég sendi hann samt og svo hringt í mann og hann búin að meiða sig, og ekki bara eitthvað lítið heldur fór ég með hann uppá slysó og út með hann þaðan, of course þrem tímum seinna, í gifsi og með hækjur? Er það að því að ég á enga pengina og þarf að fá lánaða hjá systu? Er það af því að ...

ég gæti svo sem alveg haldið áfram en ég nenni því ekki og þið nennið ekkert að lesa þetta. Ég verð frek og eigingjörn, fúl og pirruð. Og það finnst mér leiðinlegt, því ég vil alltaf vera hress og skemmtileg, sæt og góð!
Mér líður svona einsog ég sé ein en ég er það ekki, líður einsog ég eigi engar vinkonur en ég á þær og það sem mér finnst verst er að stundum finnst mér ég ekki vera góð mamma en sem betur fer veit ég það að oftast er ég það.
Því ætla ég að segja þetta gott garg í bili og þykjast vera Giljagaur í nokkra mín, þarf nebbilega að svara korti frá dóttur minni en hún biður hann um að gefa sér Bratz tölvuspil í skóinn sem er ekki boði heldur puttabrúða...

Adios

5. des. 2006

Fékk það ekki...

Gærdagurinn var fúll. Fékk ekki það sem ég vildi. Fékk ekki launahækkun, fékk ekki að sleppa við skúringar, fæ börnin ekki degi fyrr einsog planið var, en auðvitað var það samkomulag á milli mín og pabba þeirra, bara erfitt þegar maður saknar þeirra mikið. Svo fékk ég ekki að fara í bíó með vinkonu minni einsog planið var en hún ætlar að hitta mig í kvöld í staðin. En ég var komin í rosa gír að fara í bíó og sjá eitthvað subbulegt þar sem að minn kvikmyndaáhugi er skrítinn. Gæinn var komin í gír að bora í nefið heima hjá mér á meðan og var svo yndislegur að hjálpa mér að skúrast í gegnum tvo leikskóla svo ég tékkaði á honum pabba, hvort hann vildi nú ekki gera eitthvað skemmtilegt með dóttur sinni og koma í bíó. " Á saw III" spurði hann, ekkert skrítið þar sem að slíkar myndir verða oftast fyrir valinu ef við förum saman. "Auðvitað" sagði ég og er meira að segja með 2 fyrir 1 miða. En guð minn góður, ég held bara svei mér þá að ég verði að fara yfir þennan kvikmyndasmekk minn! Ég er enn með tár í augunum fyrir að hafa borgað 1stk bíómiða á þessa hundleiðinlegu mynd. Hefði mátt vita betur þar sem að mynd II var mistök. En einhver sagði mér að þessi, nr. III s.s., væri betri og líkari nr. I. Ég hef tekið þá ákvörðun að ég mun ekki sjá númer fjögur.

Ég vona að ég komist yfir þessa höfnun varðandi launamálin. Finnst ég hafa verið svikin, finnst ég hafa lækkað í launum. Er með plan og ég vindi mér í það um leið og Kennaraháskólinn svara mér!

Adios!

1. des. 2006

Stolt!

Í gær fór ég á tónleika í Söngskólanum sem dóttir mín er í. Hún er svo sæt og dugleg og nýtur sín svo í söngnum. Mér fannst þetta vera lítið mál fyrir hana að fara uppá svið og syngja tvö lög og ég var að springa úr stolti á meðan. Þegar ég var 7 ára byrjaði ég í píanótímum og var ekki áhugasöm. Og þegar tónleikar voru var ég svo stressuð og vildi helst sleppa að mæta á þá. Þegar ég var 14 ára fékk ég loks að hætta. Ég sé auðvitað eftir því í dag einsog margir sem hætta einhverri iðju þegar unglingaveikin tekur völdin hjá manni.

Svo áðan hér í vinnunni kom einn sölufulltrúinn til mín með gulrætur í poka. Í poka sem ég gerði og ég varð voða stolt. Alltaf svo gaman þegar maður fær hrós fyrir vinnu sína. Ég gerði nokkrar tillögur af hönnun og sú sem varð fyrir valinu var að mínu mati einmitt sú sem ég hefði alls ekki valið. En ég er sátt og ánægð enda kemur þetta mjög vel út.

Finn á mér að þetta verði yndislegur dagur, líka dagurinn á morgun, líka hinn og já bara allir framtíðardagar!

Gaman væri ef ég, allir og allt væri alltaf svona jákvætt.

Takk í dag :)