29. nóv. 2006

Hitt og þetta 2

Ég verð bisí um helgina. Mér er boðið í afmæli Rannsóknaþjónustu Háskólans og held að það verði mjög gaman. Búið að bjóða fyrrverandi starfsmönnum hennar svo ég er bara spennt að hitta þau öll. Það var svo gaman að vinna þar, allir svo skemmtilegir. Ég hætti reyndar árið ´98 en hef verið með annan fótinn þar í skúringafötunni. Sá albúm þar eitt skiptið þegar ég var að skúra og fékk hálfgert sjokk þegar ég sá sjálfa mig. Ég lít út fyrir að vera 10 árum yngri í dag :).

En það er samt einsgott að passa sig, drekka ekki of mikið því á laugardag fer ég í Karen Millen kjólinn sem systir mín gaf mér, enda hún búin að nota hann tvisvar og þá er hann ekki lengur flottur, skutlast svo á Fjörukránna og snæði þar með vinnunni þennan týpíska jólahlaðborðsmat sem ég er ekki spennt fyrir. Vil bara láta þjóna mér þegar ég fer út að borða, ekki standa í biðröð til að hlaða á diskinn og svo geta allir fylgst með hversu oft maður fer... en það verður áfengi þar líka og ég er ekki dugleg að drekka tvö kvöld í röð. Svo er hún Hilda líka að reyna fá okkur með sér á Players eftirá en þar er hin eina sanna Sigga Beinteins að syngja. Sálin er kvöldinu á undan og Í svörtum fötum er helgina á eftir en það er svo sem ágætt, það verður þá ekki troðið... ef það er einhvern tímann troðið á players.

Svo er ég búin að sækja um í kennó á ný, bara svona í gamni þar sem að ég er ekki enn búin að klára hjúkrunarfræðina, en kannski verð ég heppin núna. En mín yndislega systir, sem er í kennó, ákvað að forvitnast um það hvers vegna ég hefði nú ekki komist inn í vor, ræddi um þetta við námsráðgjafann sem sagði að það hefðu svo margir sótt um svo þeir hefðu verið með einhverjar dillur og farið því eftir menntun. Og þar sem að ég var ekki búin að tilkynna henni það að ég væri að sækja um á ný hélt hún að hún væri að gefa mér upp leyndarmál. Að kennó ætlar að taka inn nemendur um áramót og það vissu mjög fáir um þetta. Hún var á leiðinni til mín með umsóknareyðublað og láta mig sækja um á ný. Ég sagði henni að þetta væri ekkert leyndó, ég hefði fengið bréf og þetta væri auglýst á netinu og að ég væri búin að sækja um. Hún varð dáldið sár en ég sagði við hana að stundum verður maður að gera hlutina sjálfur og ég ætlaði bara láta hana vita þegar ég fengi svar. Hún vill manni vel, allt fyrir mann gera en mér leið mjög vel að gera þetta bara svona. Var smá efins með það að sækja um og það var bara vegna peningaskorts og svo auðvitað hvort að mig langi enn til að fara kenna fagið. Kemur allt í ljós!

Jólaskapið er svo komið. Er búin að setja ljósin upp og keypti jólasnjó til að spreyja á gluggana. Krakkarnir töpuðu sér yfir því, fannst þetta rosa flott og skemmtilegt og það er rétt hægt að sjá út um gluggan hjá stelpunni. Aðalmálið var samt að setja í elhhúsgluggann því ég ákvað að hafa engar neðri gardínur, hengdi bara skraut á stöngina en sá að ég myndi ekki geta verið á nærjunum lengur þar inni svona nágranna vegna. Því var reddað með snjó!

Svo hef ég ákveðið að næsta gjöf til gæjans verði peysa, belti eða eitthvað flott og auðvelt. Lítur út fyrir að gjöfin hans þetta ár verði tilbúin á aðfangadag. En hann mun verða glaður, ég mun verða glöð því hún er yndisleg!

Tútelú

23. nóv. 2006

Hitt og þetta

Síðasta vikan mín í Tæknó. Væri frekar til í að vera þar ennþá og hætta á hinum. Sérstaklega eftir gærkvöldið. Fékk það verk að fara á leikskólann Laugaborg. Ég hélt að ég hefði nú verið búin að taka nokkra stóra en á þessum tíndist ég og skúraði sömudeildina tvisvar. Mun sakna Tæknó. Er búin að vera þar með annann fótinn síðan ´96 og mun örugglega vera það enn reyndar. Á ekki von á því að Marta hætti að biðja um mína aðstoð. En ég ætla að láta það duga mér að vinna bara á tveim stöðum. Er reyndar að fara í launaviðtal í næstu viku og kannski verð ég svo vel metin að ég gæti lifað á einum launum! Ég er allavega búin að ákveða tölu, sem er hærri en ég ætlaði að segja en hún snillingur systir mín sagði mér að segja þetta og hitt og háa tölu. Ef þeir sætta sig við hana þegar ég mun æla henni útúr mér þá mun ég ekki þræta meira við umboðsmanninn minn, systu. Ég gæti líka bara vísað henni í launaviðtal fyrir mína hönd einsog Jensi sagði. Hahahaha, það væri snild en sjálfsagt mjög slæmt fyrir mig.
En mér líkar mjög vel hérna. Gaman að fara útí búð og sjá Staurinn í formi Stekkjastaurs en það var dáldið föndur að koma honum rétt í prentun.
Vonandi förum við parið í bústað um helgina. Hann er að ákveða sig, nóg að gera í skrifum hjá honum. Ég á líka dekur DAG inni hjá honum og hef heimtað að fá hann greiddann á laugardag. Hann vill reyndar meina að það sé bara dekur kvöld en mig minnir að það sé dagur og kvöld :). Þrái að komast aðeins í kyrrðina.

Ég fékk áðan snildarpóst. Núna get ég bara pantað á netinu, femin.is, allskonar próf til að athuga hvort ég sé komin á breytingaskeiðið, hvort ég sé með klamidíu, hvort ég sé að fá krabbamein í ristilinn og próf til að athuga hvort það sé búið að setja lyf í drykkinn minn meðan ég var að dansa uppi á borði á Nasa! Snild. ahahahahah.

Jæja, best að fara að vinna... láta allavega líta útfyrir að ég sé að vinna svo ég komi vel út í viðtalinu.

19. nóv. 2006

Helgin, update!

Sunnudagskvöld. Veit aldrei hvað ég á að gera annaðhvert sunnudagskvöld. Þá eru börnin farin til pabba síns, Jensinn minn að vinna og flestar vinkonur heima með fjölskyldunni. Var reyndar búin að næla mér í eina sem er alltaf til í að fara út en er heima í kvöld því kallinn er að vinna og einsog færðin er núna tek ég ekki sénsinn á að komast til hennar í kaffi. Langar líka að gera eitthvað, fara á kaffihús eða í bíó. Langar í bíó.
Er samt búin að gera helling skemmtilegt um helgina. Fórum í keilu á föstudagskvöld og það var stuð. Á laugardag fór ég með krakkana í Blómaval til að sjá jólasveinana en þau voru ekkert rosa ánægð, sögðust ekki vera tveggja ára! Eftir Blómavalið ákvað ég að fara í Smáralindina, er enn að reyna skilja hvers vegna, því eftir næstum þrjá tíma þar vorum við orðin svo pirruð á hvort öðru og öllum sem voru þarna. Mér tókst líka að fara inní völundarhús Hagkaups og lenda á vandamálakassa. Shit ætla ekki einu sinni að rifja það upp hér.
Í morgun gerði maður einsog flestir íslendingar, moka bílinn útúr stæðinu og það var bara gaman. Komst reyndar bara útúr stæðinu og aftur inní það. Svo sótti pabbi okkur á jeppanum og við fórum uppí Skálatún í afmæli til Dóra frænda. Alltaf gaman að fara og hitta hann og sambýlisfólkið sem hann býr með. Hann fékk kassagítar í afmælisgjöf og nú þarf bara að redda honum nótnabók með lögum Elvis.
Ég fékk smá sjokk þarna, talaði við eina konu sem á 16 ára gamla dóttur og hún hafði áhyggjur af henni því hún var uppí sumarbústað með kærastanum. Ómæ god, 16 ára uppí bústað með 19 ára gömlum kærasta! Hún sagðist hafa spurt dóttur sína hvers vegna hún hefði nú ekki getað fundið sér einhvern á sínum aldri og svarið sem hún fékk var að þeir væru svo vitlausir, þessir eldri væru með aðeins meira vit í kollinum! Ég spurði hana hvers vegna sagðir þú henni þá ekki bara að sleppa þessu, bíða með þetta. En það er víst ekki hægt, maður verður bara að treysta þeim. Ég fór beint í framtíðina, hugsaði um dóttur mína 16 ára gamla með kærasta og hugsaði um það hvort ég myndi treysta henni. Mér líst reyndar betur á að vera bara ströng og segja nei þú mátt ekki eiga kærasta, held ég myndi ekkert treysta einhverju peyjum fyrir dóttur minni. Ó guð ég fæ í magann. Svo fór ég til baka í hugsun og spáði í sjálfa mig og móður. Treysti mamma mér þegar ég var 16 ára? Já, hún gerði það en hún var auðvitað ekki hrifin og ég fékk að heyra það reglulega.

En nóg röfl í dag. Ætla að fletta í gegnum símann minn og athuga hvort ég finni einhvern til að fara með mér í bíó!

Hadde!

17. nóv. 2006

Klosettfælni...

Var að fletta blaðinu um daginn og rakst á grein með fyrirsögnina: Margir þjást af klósettfælni

Þar sem að ég þjáist af klósettfælnisvandamáli varð ég nú að lesa og athuga hvort þetta væri mikið vandamál og ég þyrfti tíma hjá sálfræðingi eða geðlækni. Reyndar segja flestir að ég sé nú bara skrítin og furðuleg og eftir að ég las þessa grein ætla ég bara að sætta mig við þá staðreynd að ég er skrítin.
En svona var greinin:
"Samtök breskra fælnisjúklinga telja að minnst fjórar milljónir Breta þjáist af svokallaðri klósettfælni.
Þeir sem þjást af þessari gerð fælni eiga yfirleitt erfitt með að nota almenningssalerni, í mismiklum mæli þó, en ástæðurnar fyrir henni eru ýmsar.
Viðkomandi aðili getur þannig verið hræddur við að smitast af einhverju á salerninu, haldinn innilokunarkennd eða átt erfitt með þvag- eða saurlát í návist annarra.
Hverjar svo sem ástæðurnar kunna að vera getur fælnin í verstu tilfellum haft alvarlega hamlandi áhrif á líf þess sem hún hrjáir. Dæmi eru þess að fólk treysti sér ekki út fyrir dyr eigin heimilis eða ráði sig ekki í vinnu af ótta við að þurfa að nota almenningssalerni. Sumir neita jafnvel að veita læknum þvagsýni, sem getur aftur valdið því heilsutjóni.
Margir eiga erfitt með að viðurkenna að þeir séu haldnir klósettfælni, ekki síst vegna þess hversu mikið feimnismál klósettferðir þykja í vestrænum samfélugum.
Samtök breskra fælnissjúklinga hafa nú hrundið af stað herferð með það fyrir augum að draga vandamálið fram í dagsljósið og kynna þau úrræði sem eru boði fyrir þá sem eiga við það að stríða. Eru viðtalsmeðferðir og dáleiðsla talin hafa gefið besta raun við að vinna bug á vandanum og stefnt er á útgáfu á DVD-diski og bók þar sem fjallað verður um málið."

Hahahaha, mitt vandamál er ekki svona klikkað og mér leið nokkuð vel yfir því að þurfa ekki að fara í dáleiðslu til að laga það.
Reyndar þarf ekkert að laga neitt. Mér líður ágætlega nema þegar mér er mál og ég er ekki heima hjá mér en þar vil ég hafa mínar klósettferðir og helst vera alein heima.

En einsog margir segja, ohh stelpa, þú ert svo skrítin!
Ég er allavega ekki sýklahrædd né haldin innilokunarkennd.

16. nóv. 2006

Afi og kartöflurnar

Hann afi gamli er mjög duglegur kall. Syndir 1500 metra á hverjum morgni, spilar brids og vist. Svo á haustin fer hann uppí bústað og tekur upp helling af kartöflum. Þegar ég segi helling þá meina ég helling. Ég er búin að fá tvo poka en ég er ekkert rosalega dugleg að hafa þær í matinn. Finnst þær ekkert vondar ég bara gleymi þeim oft og svo finnst mér bara svo leiðinlegt að bíða eftir þeim. Já ég er greinilega skrítin, mér finnst of mikið vesen að hafa þær með matnum. Allavega þá lét hann mig fá einn pokann um daginn og ég einsog bjáni set hann út á svalir. Ég meina afi geymir þær úti á svölum svo það hlýtur að vera ok. Hann reyndar spurði mig hvort það væri ekki svalt í geymslunni minni en vá, það væri nú enn flóknara fyrir mig ef ég þyrfti nú alltaf að fara fyrst niður í geymslu til að ná í kartöflur í matinn. Ég er löt. En í gær var ég með fisk í matinn og auðvitað ætlaði ég nú heldur betur að sjóða nokkrar með. Fór út á svalir með pottinn með mér, minnti mig á mömmu sem fór alltaf með pottinn niður í GEYMSLU og sótti nokkrar, en mikið voru þær skrítnar. Þetta voru einsog steinar. Skipti engu, nokkrar voru soðnar. En þær héldu áfram að vera skrítnar, ég var ekki búin að sjóða þær í 20mín og þær litu út einsog þær væru að springa þarna í pottinum og sumar voru að breytast í bómul. Þær fóru í ruslið. Ég man það núna að þær meiga ekki frjósa. Afi þyrfti að búa til miða og setja á pokann.
En kartöfllurnar héldu áfram pirra mig. Í morgun þegar ég lít inní stofu lá þessi vatnssullslóð frá fjandans kartöflupokanum sem var við svalahurðina og var næstum kominn að útidyrunum. Og þetta var svona dökkrautt á litinn og þegar sonurinn sá þetta datt honum fyrst í hug að þetta væri einsog blóðslóð, eftir morð. Argh.... svo það var farið að skúra.

Og það er kalt úti, fáránlega kalt úti, kalt inní íbúðinni minni og ég fæ engan hita á ofnana nema rétt efst. Og svo er ég búin að týna vettlingunum mínum. :(

Tútelú!

13. nóv. 2006

Tuð dagsins!

já jólin koma bráðum þegar það er 15.desember ekki þegar það er 13.nóvember. Hvað í fjandanum er málið! Það er ekki hægt að fara í Ikea, Blómaval, Húsasmiðjuna, Bykó og heldur ekki í Hagkaup nema maður vilji komast í jólaskap. Mér finnst að það ætti að banna þetta svona einsog með jólalögin í útvarpinu. Þegar 15.desember er komin þá er maður farin að bíða eftir því að 13. komi svo maður geti farið að taka niður jóladótið. Losna við piparkökuilminn úr íbúðinni og geti farið að skipta út jólakertunum með jólailminu út og sett aftur vanillu kertin. Í vinnunni er reyndar margt sem fær mann í jólaskap. Það þarf að gera jólapoka, setja nammið í jólabúning og það er víst ekki hægt að geyma það fram í miðjan desember. Ok. Ég er komin í jólaskap, vil það ekki, ekki strax og kenni Hagkaupi um það. Fúla verslun.

Svo held ég að Mjólkursamsalan sé eitthvað á móti mér. Einu sinni keypti ég kókómjólk svona sex í pakka og ein var skemmd. Ég fór með hana og vá þeir gáfu mér six-pack til að mýkja mig. Svo um daginn keypti ég mér skyr og það var ógeðslegt og ég komst að því þegar ég var búin að gúbba í mig einni skeið. Varð pirruð og kvartaði, auðvitað, en það var hringt í mig ég spurð hvort ég gæti komið með dolluna. Já já, ekkert mál sagði ég og stökk í næsta hús með gerlaða skyrið. Hélt ég fengi kannski nýja skyrdós + eina með en nei nei, fullan poka af mjólk, skyri og rjóma. En svo virðist ég alltaf vera að lenda í því að fá ónýta mjólk, jógúrt eða eitthvað sull frá þeim. Er samt ekki að nenna standa í endalausum kvörtunum svo það fer bara í ruslið. En áðan var ég að elda góðan mat og í hann þurfti ég kaffirjóma sem ég keypti í dag. Hann er settur yfir réttinn svona áður en hann fer inní ofnin en þessi rjómi fór ekki rass yfir réttinn minn heldur beint í vaskinn og ég útí búð.
Hvað á ég að gera? Fara með hann? Langar helst að fara með hann og þrusa honum bara á stéttina... en nei það myndi ég aldrei gera. Held að þetta séu búðirnar sem eru að klúðra málunum.

læt þetta vera nóg af tuði í dag.

Tútelú!

10. nóv. 2006

Skrifa eða sleppa þvi?

Mig langar að rausa en dettur ekkert sniðugt í hug. Nenni ekki að rausa um fréttir, stjórnmál, slappleika, þunglyndi, myrkrið, skítaveðrið, veðurtafir né fólk sem fer í taugarnar á mér. Já há, ég nenni og vil s.s. ekki tuða.
Langar að skrifa eitthvað fyndið. Eitthvað sem fær lesandann til að brosa, ef ekki skellihlæja. Það finnst mér svo skemmtilegt, fá alla til að hlæja og ef ég þarf að gera eitthvað bjánalegt til þess þá er það bara skemmtilegra.
Er ánægð með þessa nýju síðu nema auðvitað vil ég fá comment og það er bara ekki að ganga að setja þau hingað inn. Kannski getur þessi ágæti drengur sem sagði mér frá þessari snildarsíðu, þessu betabloggi, sem honum langar svo í lagað þetta mál fyrir mig. Auðvitað er hann búin að reyna en ég er svo þolinmóð (hahahahaha) þannig að við bíðum í nokkra daga. Skiptir kannski ekki svo miklu máli, ekki einsog það sé mikið verið að commenta hjá mér, enda er ég ekkert að bulla eitthvað sem kallar á athugasemd.

En annaðkvöld fer ég í partý sem haldið er mér til heiðurs. Það verður gaman enda frábært, skemmtilegt og fyndið fólk sem ég vann með. Ég vona að sem flestir koma en gæti líka orðið fámennt en allveg pottþétt góðmennt!

Hlakka til. Over and out í dag!

7. nóv. 2006

Monday

Fyrir utan að vinna mína yndislegu dagvinnu þá vinn ég líka við afleysingar hjá ræstingafyrirtæki. Oftast fæ ég leikskóla en í gær fékk ég það skemmtilega verkefni, eða þannig, að þrífa einn ákveðin stað þar sem að 99 % eru karlmenn. Ekki málið, ég kem á svæðið og konan sýnir mér það sem ég á að gera. Þarna voru nokkrar skrifstofur, kaffistofa, matsalur og klósett en líka búningaklefi fyrir vinnumennina þar sem þeir verða frekar skítugir eftir vinnudaginn. Ég var að tæma öskubakka sem voru inná skrifstofunum! Meira að segja einn merktan Reykjavíkurborg. Ojbara, hélt að þetta væri ekki í boðið fyrir neinn lengur en það er víst erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Man þegar ég fór með mömmu að skúra gamla DV húsið, ég fékk að hlaupa inná allar skrifstofurnar og tæma öskubakkana og vaska þá upp. En halló það var fyrir 25 árum síðan.
Þegar ég nálgast svo búningsklefann, kíki inn varlega því mig langaði ekki að sjá neinn þarna á brókinni, hvað þá nakinn en sem betur fer var enginn þarna inni. En fljótlega birtist einn kallinn og ég spyr hvort það sé nokkur von á því að það fari að fjölga þarna inni og allir á leiðinni í sturtu. Nei nei, sagði hann og fór fram. Kom aftur stuttu seinna og spyr hvort ég sé búin þarna sem sturturnar eru. Nei, ekki alveg… alltí lagi, þú bíður þá bara í smá stund, ég ætla að skella mér í eina! What! Er ekki í lagi! Það fór skrítinn hrollur um mig þarna inni. Einhver bláókunnugur maður, hinum meginn við þunnnan vegginn að skella sér í sturtu. Ég kláraði það sem ég gat og meira til, en hann var sko ekkert að flýta sér. Heldur ekki þegar hann var búin í sturtunni, þá fór hann bara eitthvað að dúlla sér þarna. Ég fór. Ég gafst upp á skítnum þarna, gekk frá og flýtti mér út. Vona að ég þurfi ekki að mæta þarna aftur og ef svo þá fer ég seint um kvöld.
Eftir þetta ævintýri var farið í fisk til mömmu og veitt aðstoð í uppsetningu á word skjali. Var farin að pirrast pínu, átti eftir að skúra tæknó og langaði að faðma kærastann. Það gerðist sem betur fer á endanum. En alltaf frekar pirrandi þegar manni hlakkar til einhvers og það hrinur einsog dominos! Þá þarf maður að annað hvort stappa í sig stálinu og halda höfðinu hátt eða rjúka uppá Lögberg og öskra, koma svo til baka ferskur og fínn, láta í sér heyra, skamma og tjá sig! Vona svo að allt sé búið svo hægt sé að elskast og fara að sofa…
En stundum er bara ekki allt búið og hvað þá?

5. nóv. 2006

Nýja síðan mín!

Líst vel á þetta beta blogg. Var orðin þreytt á þessum blikkandi auglýsingum.
Vona að þið lesendur séu líka ánægðir :)

over and out today!