26. feb. 2007

Mánudagafærslur!

Bulla bara á mánudögum. Það er svo sem í lagi, hef hvort eð er ekkert að segja en hef helling að gera. Læra, læra, læra, vinna og vinna! Naut þess að vera með mínum yndislegu börnum sem eru núna farin til pabba síns. Veit að þessi vika mun líða hratt, staðlota í skólanum og já, þar mun ég vera með framsögn og kennslu. Veit ekki enn hvað ég á að kenna í fjórar mínútur tengt mínu fagi...
Best að fara að vinna núna, er að gera "hundaskítspoka" sem ætti ekki að vera neitt mál en stundum veit maður ekki alveg hvað sölumenn eru að biðja um! Er komin í tíu útfærslur, ég meina halló, við erum að tala um poka sem hundaskítur fer í!!!

Takk í dag!

19. feb. 2007

Monday, Monday!

Frábær helgi búin. Árshátíðin var hin flottasta og skemmtilegasta og mér tókst að sjálfsögðu að drekka einsog mér einni er lagið, sem betur fer er ég ekki lengur að vinna með þessu fólki og já, sem betur fer er ég ekki á leiðinni á árshátíðina með fólkinu sem ég er að vinna með!
Vissi að vikan framundan er erfið og ég var ekki mikið að nenna að spá í það í gær, enda glerþunn. Svo byrja ég á því að hringja í vinnuna til að segja að ég komi ekki vegna veikinda dóttur minnar.
Ohh..... dísis kræst. Ég á svo innilega ekki að vera að bulla hér heldur á ég að vera að lesa eða gera verkefni, eða skrifa blogg á Elgginn eða taka þátt í umræðum.
Ætla í sturtu, fá mér kaffibolla og byrja svo...

14. feb. 2007

Stærð 12, 10 eða 8...

Ég ætla að hætta að fara eftir þessum númerum. Ef ég passa í flíkina þá fínt, ef ekki þá fúllt. Ég er búin að vera nokkuð ánægð yfir því að hafa komist í pils númer 8 þó ég hafi keypt nr. 10. Svo kíki ég til systu til að máta kjóla og þeir eru allir í 12 og ég þarf að troða mér í þá, halda inni maganum og helst ekki sitja né borða. Pirrandi!

Ég var ekki að máta kjóla að gamni mínu heldur vegna árshátíðar sem verður á Hótel Selfossi. Það held ég að verði gaman, hitta gömlu vinnufélagana og gista í flottu herbergi.

Tútdelú :)

12. feb. 2007

Bíladót = fáklæddar gellur!

Hvað er það með gellur í nánast engum fötum og bíladót? Hann pabbi hefur unnið á bílaverkstæði síðan ég fæddist og ég man alltaf eftir dagatölunum með brjóstakonunum. Ok. þetta var bara eitthvað sem var og er á flestum verkstæðum, sem tengist bifreiðum, hef ekki séð svona á t.d. tölvuverkstæðum. En svo fór ég með bílinn minn á verkstæði sem leit nokkuð vel út, svona hrein og fín móttaka og verslun. Ég var að svipast um í versluninni og tók eftir því að það var alltaf sama daman utan um vörurnar í mismunandi stellingum. Og í þessum silfraða, þrönga galla sem var ýmist rendur upp pínu, helming eða alla leið. Kjánalegt logo þar á ferð. En það var alveg sama hvað ég skoðaði alltaf einhver gella á umbúðunum.
Ég fékk mér bara sæti. Var farið að líða bara hálf skringilega þarna inni. Þá var mér litið á borð fyrir framan mig og þar lágu bílablöð í hrúgu en það sást varla í bifreið á forsíðunni heldur fáklætt stúlkugrey! Ég varð að fletta aðeins í þessu, bara til að athuga hvort þetta væri bílablað eða kannski bara kallablað sem ætti frekar heima inni á salerninu í þessu fyrirtæki. En nei, þarna voru bílahlutir og á hverri síðu var ný gella í ljótum nærfötum sem lá á skrúfuhrúgu eða ofan á felgu.
Ég fatta þetta ekki. Geta karlmenn ekki ákveðið hvað þeir eiga að kaupa í eða á bílinn sinn? Þarf virkilega að setja fallegan kvenmann í dræsulegan klæðnað og ríðulega stellingu til að þeir kaupi þetta dót?

Hvers vegna eru ekki gullfallegir karlmenn, vel skornir og brúnir í tupperware bæklingi? Samt alveg pottþétt að ég kaupi ekkert frekar hnoðskálina frá því fyrirtæki ef kall á brókinni væri að hnoðast með hana.

9. feb. 2007

Nenni þessu varla...

Ég er ekki alveg viss um að ég nenni þessari leikfimi. Mér er illt í bakinu, enn með magavöðvana spennta og orkulaus. Ég hélt að maður ætti að verða fullur af orku eftir þetta púl! Ekki að gerast hjá mér. Svo er vigtin farin að segja 60kg sem er ok þar sem að ég mátaði föt í gær í stærð 8 og komst í en fann svo 10 og er mjög ánægð með það. Ég er glöð að vera farin úr millistærðinni 11 sem er ekki til. Nei, ég ætla ekki í neitt framhaldspúl, ég skúra á hverju kvöldi risa leikskóla og stunda svo skemmtilega heimaleikfimi svo ég get bara lagt heilsuræktarkostnaðinn inná nýja sparireikningin minn!

Líður rosa vel, ætla í sund á eftir og spóka mig í nýja tankininu mínu ásamt börnum og gæja. Fáum okkur svo pizzu og svo er það bakstur... vona að það komi einhver í kaffi á morgun.

6. feb. 2007

Ég á afmæli i dag...

og líður rosa vel. Ég mun ekki taka á móti gestum og pökkum í dag en verið velkomin á laugardag.

5. feb. 2007

Tuð, samkomulag, sátt, ritgerð og flottur bíll.

Þetta var bara dáldill púl dagur. Byrjaði daginn á að skila inn yndislega, fallega, frábæra bílnum mínum inná verkstæði og keyrði þaðan í burtu á rosa flottum suzuki sem varð heitur áðurn en ég setti hann í gang. Er að spá í að það hvort bifreiðaverkstæði og bílaumboð séu með samninga. Eftir fimm daga á flottum bíl langar manni ekkert í gamla bílinn og fer því og kaupir einn, nei afsakið, meina fær lánað fyrir honum og verður fátækari en lifir ákveðnum lúxus. Ég vona að Hilda tali við mig eftir þennan lestur en við erum svo ósammála um fjárfestingu í bifreið.
Laun, laun og aftur laun. Er búin að taka að mér fast skrúbbajob, hætt þessum þeytingi, leið vel á eftir. Er búin að skila ritgerð í fullorðinsfræðslunni, leið rosa vel á eftir. Komst að því að ég hef misskilið ákveðna manneskju í of langan tíma og ætla að hætta að dæma og ákveða fyrirfram hvað fólk er að hugsa. Núna bíð ég eftir að fara í heita baðið mitt og fá næturgest og svo auðvitað bíð ég eftir því að verða 32 ára!