21. okt. 2007

Frjálst framlag

Ég hef unnið á þó nokkuð mörgum stöðum. Stundum lengi og stundum stoppað stutt. Mér hefur aldrei verið sagt upp, alltaf verið ég sem tek það skref að hætta. Fyrir fimm árum lauk ég námi og byrjaði aftur í kvöldnámi í rólegheitum til að komast í KHÍ því mig langaði í framtíðinni að kenna mitt fag. Núna styttist í það að ég ljúki því námi en ég er voða hrædd um að ég sé ekki enn búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór.
Einsog flestir lesendur vita þá byrjaði ég sem leiðbeinandi í grunnskóla. Tók að mér að kenna 7.bekk. Þetta er það erfiðasta starf sem ég hef tekið að mér. Heilsan er að fara, ekkert úthald, ekkert skipulag, endalaus neikvæðni, urra á börnin, urra á börnin mín og svo hef ég nánast ekkert sinnt þessu námi mínu. Ég hef því sagt upp! Og það leggst vel í mig.
Það má vel vera að þetta hafi verið mistök hjá mér að taka að mér kennslu, vera umsjónakennari 12 ára krakka sem eru öll á pjúbertinu einsog samstarfskona mín orðar það. Það getur líka verið að ég væri ekkert að hætta ef ég hefði fengið mun betri stuðning, ef að tveir nemendur hefðu haldið áfram í sérkennslu í stað þess að vera inní tímum og ef að ég hefði nú ekki verið send EIN með þau öll í fimm daga ferðalag. En það veit engin. Ég á eftir að sakna þeirra allra 19. Það veður erfitt að segja þeim þetta en ég vona að þau virði mína ákvörðun. Ég vona líka að samstarfsfólkið virði hana líka. Vil ekki smjatt, vil ekki að þau haldi að ég sé að gefast upp of fljótt. En draumurinn um að kenna fagið mitt fer minnkandi. Gerði þetta svo hann hverfi ekki alveg.

Nú svo eftir 10.desember verð ég búin í tveimur prófum, skila heimildaritgerð, skila stóru verkefni og ferilmöppu. Eftir það kíki ég kannski á atvinnuauglýsingarnar! Þangað til ætla ég að vera mjög fátækur námsmaður á engum námslánum. Þeir sem vilja styrkja mig geta lagt inná reikninginn minn!

Engin ummæli: