28. maí 2009

Spítalalíf

Ég er búin að vera í tvær vikur í nýju vinnunni. Ég er s.s. í eldhúsi Landspítalans, er í sérfæðideildinni. Það þýðir að ég sé um þá sem eru með einhverjar sérþarfir tengt mat og ofnæmi. Maður þarf því að vera dáldið vakandi, eða það hefði ég haldið.
Fyrsta daginn minn var hann Igor að útskýra fyrir mér hlutina og ég hef unnið á nokkuð mörgum stöðum og fannst því dáldið skondið að fá sýnikennslu á ensku. Igor er frá Lettlandi og sem betur fer talar hann skiljanlega ensku. Daginn eftir var ég með eldri konu sem er ættuð frá Íslandi og fékk ég reyndar tvo daga með henni. Hjúkket.

En þetta var allt ennþá algjör súpa fyrir mér og ég var farin að efast um að ég myndi nokkurn tímann ná þessu. En hugsaði að svona er þetta alltaf þegar maður byrjar á nýjum stað. En eftir eina og hálfa viku var ég virkilega orðin stressuð og sagði sambýlingnum að ég væri pottþétt með athyglisbrest. Þetta væri mér ómögulegt að muna alla þessa límmiða, dalla, hver á að fá hvað, hvenær á ég að byrja og svo framvegis.
Nú auðvitað var mér svo skellt í djúpulaugina, átti að sjá um "heita" ein. Shit, kræst, hvaða sjúklingur fær ofnæmiskast, eða reiðiskast því sósan var vond... sem betur fer gekk þetta og sem betur fer er þetta allt að koma. Í dag gerði ég engin mistök, brendi engar sósur né súpur og kjúklingabringurnar voru ekki hráar.

Það eru ansi margir sem vinna í þessu stóra eldhúsi, flestir frá Tælandi, Lettlandi og Póllandi. Í fyrstu þótt mér þetta hálf undarlegt því uppskriftirnar eru allar á íslensku og mér datt í hug að þau færu bara eftir hráefnislistanum og hunsuðu aðferðina. Vá, mér fannst ég bara í raun hafa einhverja fordóma og þótti það frekar glatað. Sem betur fer rann það fljótt af mér. Ég hugsaði með mér að ef allir þarna inni væru íslendingar væri sko hundleiðinlegt þarna og mjög fáir með bros á vör. Ég er nokkuð viss um að mjög fáir íslendingar myndu nenna að vinna þessa vinnu, vaska upp, þrífa og skrúbba potta og gólf. Allir er svo glaðir, gantast á pólsku og tælensku og er síðan öll þrusu góð í íslenskunni.

Ég er ánægð og ég viðurkenni það að ef ég væri ekki námsmaður og hefði verið atvinnulaus og þetta væri eina vinnan í boði þá væri ég ekki eins glöð.

Engin ummæli: